News

Listasafn Islands

LANGUR FIMMTUDAGUR Í LISTASAFNINU - OPIÐ TIL TÍU

Sama kvöld verður hleypt af stokkunum seríu sem gengur undir heitinu Sófaspjall í safninu þar sem sýningar safnsins verða settar í sviðsljósið á nýjan og óhefðbundinn hátt. Að þessu sinni verður fókusinn á Feneyjatvíæringnum í tilefni af sýningu Steingríms Eyfjörð í safninu. Sófaspjallið verður á dagskrá síðasta fimmtudag hvers mánaðar.

HULDUFÓLK 102
e. NISHA INALSINGH
KL. 17:30 - 19:30
Kviksaga frumsýnir, í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og  rannsóknarverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins, heimildamyndina Huldufólk 102  eftir Nisha Inalsingh. Kristinn Schram þjóðfræðingur fylgir myndinni úr hlaði. Sýningartími er um 80 mínútur en að myndinni lokinni munu meðal annars Kristinn, Terry Gunnell og Unnur Þóra Jökulsdóttir ræða um myndina og hlutverk huldufólks í  menningarlífi og ímynd Íslands.

Um myndina
Ósýnileg þjóð á dularfullri eyju, lífseig þjóðtrú sem mótar líf  Íslendinga, gatnakerfi og jafnvel dagleg samskipti.  Með þessa  vaxandi mynd af landi og þjóð í farteskinu kannar  heimildamyndagerðamaðurinn Nisha Inalsingh Ísland og leyndardóma náttúrunnar. Með mynd sinni Huldufólk 102, kannar hún mismunandi  skoðanir fólks til huldra vætta, kafar ofan í reynslusögur og tengir við hnattræna stöðu landsins, einangrun, vetrarnætur og náttúruundur.  Með undirleik hljómsveita á borð við Múm og Sigur Rós er leitað svara við leyndardómum og reynt á takmarkanir mannlegrar skynjunar. Sjónarspilinu er ætlað að varpa ljósi á þær þverstæður sem búa í  hlutskiptum manna: einfaldleiki þess sem við búum við í okkar hversdagslífi gegnt þeim margbreytileika sem við sjáum ekki í eigin heimi. Huldufólk 102 er fyrst í röð Íslandsmyndasýninga Kviksögu í Hafnarhúsinu í ár. Hér er um Íslandsfrumsýningu að ræða en myndin hefur hlotið lof á fjölmörgum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.  www.huldufolk102.com
Kviksaga er félagsskapur um kvikmyndalist og fræði. Íslandsmyndir er yfirheiti á fjölbreyttum kvikmyndum sem eiga það sameiginlegt að fjalla um Ísland og Íslendinga.

FENEYJATVÍÆRINGURINN
SÓFASPJALL Í SAFNINU MEÐ STEINGRÍMI EYFJÖRÐ, HÖNNU STYRMISDÓTTUR OG ÓLÖFU K. SIGURÐARDÓTTUR
KL.  20:00
Sýningin Lóan er komin sem nú stendur í Hafnarhúsinu var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum síðastliðið vor. Af því tilefni verður efnt til umræðna um Tvíæringinn – þátttöku og gildi í fjölnotasal Hafnarhúss. Þátttakendur verða fulltrúi Íslands Steingrímur Eyfjörð og sýningarstjóri sýningarinnar Hanna Styrmisdóttir. Þau munu fjalla um verk Steingríms, undirbúning verkefnisins og þátttökuna í þessum mesta myndlistarviðburði heimsins. Einnig verður fjallað um gildi Tvíæringsins fyrir íslenska myndlist og þá listamenn sem þangað eru sendir. Umsjón hefur Ólöf K. Sigurðardóttir og vænst er þátttöku gesta úr sal.

Kaffihúsið er opið og býður upp á léttan kvöldverð og aðrar veitingar á sanngjörnu verði.
AÐGANGUR ÓKEYPIS
LISTASAFN REYKJAVÍKUR ER SAFNIÐ ÞITTPrinted of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 04.08.2015