News

Listasafn Islands

HVÍTASUNNUDAGUR KOMINN HEIM!- 2. - 30. desember 2007

HVÍTASUNNUDAGUR
Í febrúar á þessu ári kom í leitirnar í Danmörku málverkið Hvítasunnudagur, einstakt verk eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval, sem hafði verið leitað lengi. Kjarval málaði Hvítasunnudag þegar hann hafði nýlokið námi við Konunglegu dönsku listaakademíuna árið 1917 en það er í kúbískum anda og tilheyrir mikilvægu tímabili í lífi Kjarvals.
Það vakti mikla athygli í íslenskum fjölmiðlum þegar verkið fannst og mikil eftirvænting ríkti þegar ljóst var að það ætti að bjóða það upp á uppboði. Mikil leynd hvíldi yfir kaupanda verksins og margir bundu vonir við að þessi mikilvægi hlekkur í listasögu Kjarvals rataði til Íslands. Nú hefur komið í ljós að Landsbankinn stendur á bakvið þessa mikilvægu viðbót við menningarverðmæti þjóðarinnar en fljótlega eftir kaupin bauð það Listasafni Reykjavíkur að taka verkið til sýningar þar sem almenningur fengi þess notið. Auk þess þótti viðeigandi að þetta lykilverk Kjarvals yrði fyrst sýnt í húsi sem tileikað er listamanninum sjálfum.
 Hvítasunnudagur verður í öndvegi í austursal Kjarvalsstaða auk fleiri verka sem Landsbankinn keypti á síðasta ári þegar bankinn fagnaði 120 ára afmæli sínu. Þar er m.a. um að ræða kolateikningar eftir Kjarval, sem fundust upp á háalofti gamla Stýrimannaskólans í Reykjavík sumarið 1994. Teikningarnar eru frá 1924 – 25 og eru formyndir af veggmyndum sem nú prýða Landsbankann í Austurstræti. Auk Kjarvalsverkanna verða til sýnis verk eftir listamennina Finn Jónsson, Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Scheving, Þorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur, Zakarias Mikines, Braga Ásgeirsson, Kára Svensson, Elías B. Halldórsson, Ian Sharpe, Eggert Pétursson, Guðrúnu Einarsdóttur, Georg Guðna, Hlaðgerði Írisi Björnsdóttur, Jón B. Ransú, Sigurð Árna Sigurðsson og Sigtrygg Bjarna Baldvinsson. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur.
 
 MYNDATEXTI:
Jóhannes Sveinsson Kjarval, Hvítasunnudagur  (Pinsemorgen), 1917-19. Olíulitur og gullgrunnur á léreft. 100 x 113 cm.

 
 Nánari upplýsingar veita:
Soffía Karlsdóttir, deildarstjóri kynningarmála hjá Listasafni Reykjavíkur, s. 820 1202

 

Sjá hér nánar um sýninguna og leiðsagnir sem verða á tímabilinu. 

Sýningarstjóraspjall - leiðsögn:
Sunnudaginn 2. desember kl. 16:00
Aðalsteinn Ingólfsson sýningarstjóri

Sunnudaginn 9. desember kl. 15:00
Aðalsteinn Ingólfsson sýningarstjóri

Sunnudaginn 16. desember kl. 15:00
Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir listfræðingur

Sunnudaginn 30. desember kl. 15:00
LeiðsögnPrinted of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 02.38.2015