News

Listasafn Islands

Kvöldgöngur úr Kvosinni

Fimmtudagskvöldið 7. júní kl. 20 verður haldið í fyrstu Kvöldgönguna frá Kvosinni í sumar. Þetta er þriðja sumarið sem menningarstofnanir Reykjavíkurborgar standa fyrir slíkum göngum á fimmtudagskvöldum og hafa vinsældir þeirra sífellt aukist. Sú nýbreytni var tekin upp í fyrra að bjóða einnig upp á siglingar og heldur sú hefð áfram nú í sumar í boði Viðeyjar.
Fyrsta ganga sumarsins er tileinkuð Jónasi Hallgrímssyni í tilefni þess að í ár eru 200 ár liðin frá fæðingu hans og er hún í boði Borgarbókasafns. Einar Ólafsson og Jónína Óskarsdóttir leiða gönguna en farið verður um slóðir Jónasar í Kvosinni og nágrenni hennar. Jónas bjó meðal annars í Aðalstræti og Suðurgötu en fleiri staðir í miðbænum tengjast einnig skáldskap hans og ævi þótt ekki sé hægt að segja að Jónas hafi verið mikill talsmaður eða aðdáandi bæjarins.
Allar göngurnar hefjast í Grófinni, á milli Borgarbókasafns og Listasafns Reykjavíkur og er lagt af stað kl. 20. Aðgangur er ókeypis (nema að borga þarf ferjutoll í siglingar) og eru allir velkomnir.
7. júní
Á sumarvegi - Jónas Hallgrímsson í Kvosinni
Borgarbókasafn Reykjavíkur
Einar Ólafsson og Jónína Óskarsdóttir leiða gesti um slóðir Jónasar Hallgrímssonar í Kvosinni í tilefni 200 ára fæðingarafmælis listaskáldsins góða.
14. júní 
Kvosin brennur! Miðbæjarbrunar í máli og myndum
Ljósmyndasafn Reykjavíkur 
Gengið verður um nokkra af helstu brunastöðum miðborgarinnar og byggðaþróun Kvosarinnar skoðuð með hliðsjón af eldsvoðum síðustu 100 ára. Sýndar verða gamlar ljósmyndir úr fórum safnsins sem sýna brunastaðinn fyrir og/eða eftir eldsvoðann. Gönguna leiðir Gísli Helgason, starfsmaður Ljósmyndasafns Reykjavíkur.
21. júní
Gamalt og nýtt í byggingarlist
Listasafn Reykjavíkur
Á sólstöðum verða elstu og yngstu hús miðbæjarins skoðuð með tilliti til sérkenna staðar undir leiðsögn Guju Daggar Hauksdóttur, arkitekts og deildarstjóra byggingarlistardeildar safnsins.
28. júní 
Með augum ljósmyndarans
Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari gengur um miðbæ Reykjavíkur og lýsir því sem fyrir augu ber frá sjónarhorni ljósmyndara.
5. júlí
Fornleifar og landnám Reykjavíkur
Minjasafn Reykjavíkur
Gengið verður um elsta hluta Reykjavíkur, Aðalstræti og nágrenni. Sagt verður frá helstu fornleifum sem þar hafa fundist og Landnámssýningin Reykjavík 871 ± 2 heimsótt. Gönguna leiðir Orri Vésteinsson fornleifafræðingur.
12. júlí 
Kvosarsigling
Viðey
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur segir frá því sem fyrir augu ber á siglingu um sundin. Helstu kennileiti skoðuð og stiklað á stóru í sögunni, en um aldir komu gestir borgarinnar sjóleiðina. Safnast verður saman við Grófarhús, Tryggvagötu 15. Siglingin tekur um eina og hálfa klukkustund. Ferjutollur er 1.000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn.
19. júlí
Konungsganga
Minjasafn Reykjavíkur
Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá konungskomunni 1907 verður fetað í fótspor Friðriks 8. konungs Danmerkur og Íslands. Brugðið verður upp mynd af þeirri Reykjavík sem honum mætti. Gönguna leiðir Helga Maureen Gylfadóttir, starfsmaður safnsins.
26. júlí 
Reykjavík séð og skynjuð
Listasafn Reykjavíkur
Gengið verður um miðborgina og hún skoðuð í nýju ljósi. Ýmsum brögðum verður beitt til að kalla fram nýja og óvænta skynjun á umhverfinu. Ilmur Stefánsdóttir myndlistarmaður leiðir gönguna.
2. ágúst 
Drauga- og hamfarasigling í samvinnu við Draugagönguna í Reykjavík
Viðey
Siglt verður um Sundin og sjónum beint að sjóslysum og öðrum hamförum sem þar hafa átt sér stað. Einnig verður hugað að sögnum af draugagangi á svæðinu. Safnast verður saman við Grófarhús, Tryggvagötu 15. Siglingin tekur um eina og hálfa klukkustund. Ferjutollur er 1.000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn.
9. ágúst 
Hinsegin Reykjavík
Borgarbókasafn Reykjavíkur
Bókmenntaganga með Úlfhildi Dagsdóttur bókmenntafræðingi og Ingunni Snædal rithöfundi í tilefni Hinsegin daga í Reykjavík.
16. ágúst
Óvissuganga
Í boði allra safnanna
Sú hefð hefur skapast að bjóða upp á óvissugöngu í lok sumars þar sem borgin, saga hennar og menning, er skoðuð frá óvæntu sjónarhorni.

Printed of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 05.29.2015