News

Listasafn Islands

Andri Snær velur Hraunteigar við Heklu eftir Jón Stefánsson á Flæði

,,Eftirmyndin er varin en ekki sjálf frummyndin“
Andri Snær Magnason rithöfundur valdi verkið Hraunteigar við Heklu (1930) eftir Jón Stefánsson (1881-1962) á sýningunni Flæði á Kjarvalsstöðum í dag. Listasafn Reykjavíkur hefur leitað til þjóðþekktra einstaklinga og beðið þá að velja sér uppáhaldsverk á sýningunni  á hverjum fimmtudegi kl. 12.15. Þau sem hafa nú þegar valið verk vikunnar eru auk Andra Jón Gnarr, Guðrún Ásmundsdóttir, Hugleikur Dagsson, Hrefna Sætran og Steinunn Sigurðardóttir. Einar Bárðarson forstöðumaður Höfuðborgarstofu velur sér uppáhaldsverk á Flæði þann 4. apríl. Alls hafa um 330 verk verið sett upp á sýningunni Flæði frá því hún opnaði 2. febrúar. Sýningin er síbreytileg og hefur tekið miklum breytingum frá opnun. 

Andri Snær Magnason sagði þetta meðal annars um verkið á Kjarvalsstöðum í dag:

,,Atburðir síðustu daga fengu mig til að velja Hraunteiga við Heklu eftir Jón Stefánsson sem er einn af frumherjum íslenskrar myndlistar. Jón sá fegurðina í íslensku landslagi en hann benti m.a. á að það væri eins og nakinn líkami. Hann sá náttúruna í öðru ljósi en Íslendingar gerðu á fyrri hluta síðustu aldar. Jón færði ásamt Kjarval og fleiri meisturum fegurð auðnanna í myndmál. Þessir listamenn, fönguðu náttúrusýn. Sýn sem margir Íslendingar hafa nú til dags og náttúruverndarbarátta hefur snúist um síðustu ár. Mig langar að setja þetta í annað samhengi en fyrir nokkrum árum bjó Bjarni Helgason myndlistarmaður til myndskeið í tengslum við náttúruverndarbaráttu þar sem hann drekkti  myndinni Hraunteigar við Heklu táknrænt þ.e. þannig að hraunteigarnir sukku. Samsvarandi myndskeið hefur verið gert um Gálgahraunið hans Kjarvals. Myndstef var ekki sátt við þessa meðhöndlun og sendi harðort skeyti um að með því væri verið að brjóta á sæmdarrétti höfundar. Það sem er athyglisvert við þetta er að eftirmyndin er þannig varin en ekki frummyndin eða sjálf náttúran.“

Um Jón Stefánsson:
Jón Stefánsson (1881-1962) var einn af frumherjunum íslenskrar myndlistar. Hann málaði landslag, portrett, fólk og uppstillingar. Jón var 38 ára þegar hann sýndi verk sín fyrst opinberlega árið 1919. Hann fæddist á Sauðárkróki. Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1900 og fór í framhaldi að því í verkfræðinám til Kaupmannahafnar. Þremur árum síðar sagði hann skilið við verkfræðina og byrjaði að læra að mála. Hann var fyrst í listaskóla í Kaupmannahöfn og síðar í París.
Í landslagsverkum sínum leitaðist Jón við að sýna þau áhrif sem náttúran hafði á hann en málverk hans búa oft yfir sterkri rómantískri náttúrukennd. 
 

Verkið Hraunteigar við Heklu
Verkið er olíumálverk frá 1930 og var gjöf til Reykjavíkurborgar árið 1955.

 Printed of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 30.43.2015