News

Listasafn Islands

BRAGI ÁSGEIRSSON - AUGNASINFÓNÍA OPNUN 13. SEPTEMBER KL. 16:00

„ „Ég ber ótakmarkaða  virðingu fyrir myndlistinni.  Hún er hvorki sprell né grunnrist dægurgaman. Myndlist er kröfuhart fag. Stundum er henni líkt við eiturlyf, sem hefur þó ekkert nema góð áhrif á iðkandann. Það þurfa að vera innri átök og sviptingar í listinni og hún má hvorki verða vani eða skylda.“
Þessi orð Braga Ásgeirssonar listmálara segja allt sem segja þarf um það tak sem myndlistin hefur haft á honum alla tíð, og hann á henni. Hann hefur helgað myndlistinni líf sitt, ekki einungis sem listamaður heldur einnig í stoðgreinum listanna svo sem k ennslu, greinarskrifum og listrýni, en auk þess var hann á tímabili mikilvirkur í félagsstörfum myndlistarmanna.“

Textabrotið hér að ofan er úr ítarlegu viðtali Þórodds Bjarnasonar við Braga Ásgeirsson í nýrri bók sem Listasafn Reykjavíkur og bókaforlagið Opna gefa út á sama tíma og opnuð verður á Kjarvalsstöðum stærsta yfirlitssýning sem haldin hefur verið á verkum listamannsins og spannar sextíu ár í lífi Braga. Bragi segir í sama viðtali að hann gæti auðveldlega fyllt þrjá Kjarvalsstaði en sýningin ber vinnusemi og gríðarlegum afköstum listamannsins gott vitni. Tímabilin í list Braga eru fjögur og skiptast á milli miðla fremur en umfjöllunarefna; Teikning, grafík, upphleypt verk og málverk. Flest verka Braga eru í einkaeign en einnig í eigu safna, einkasafna, fyrirtækja og einstaklinga.

Á sýningunni og í bókinni er í fyrsta sinn gefin yfirsýn yfir langan og merkan feril Braga. Sýningarstjórinn Þóroddur Bjarnason hefur valið af kostgæfni verk frá öllum tímabilum Braga en list hans er víðfeðm; teikningar, upphleypt poppverk, abstrakt málverk og fígúratíf grafík. Sýningin gefur gott yfirlit yfir þróun listamannsins, hvernig popplistaverkin tengist því sem á undan fór og hvaða breytingum list hans hefur tekið á síðastliðnum árum. Þar má sjá einkenni grafískra verka hans og hversu vandaður teiknari og málari hann er, en fyrst og fremst hversu Bragi hefur ávallt verið sjálfum sér trúr og iðulega farið ótroðnar slóðir.

Eins og fyrr sagði gefa Listasafn Reykjavíkur og bókaútgáfan Opna út veglega bók um listamanninn sem er ríkulega skreytt verkum eftir Braga frá öllum ferli hans. Bókina hannaði Anna Björnsdóttir og verður hún seld á Kjarvalsstöðum á   tilboðsverði á meðan á sýningunni stendur.

NORÐURSALUR
Bragi er fæddur árið 1931 og hefur lifað í algjörri þögn frá 9 ára aldri. Til að varpa ljósi á þann heim, sem okkur flestum er framandi, hefur verið sett upp fræðslusýning í norðursal
Kjarvalsstaða sem ber yfirskriftina Bragi í hólf og gólf. Sýningin er byggð á þeirri nálgun að „skynja án orða”. Þar gefst safngestum á öllum aldri kostur á að upplifa ævistarf Braga Ásgeirsson á óvenjulegan máta sem mikilvirks listamanns, listrýni og greinahöfundar. Fræðslusýningunni er einnig ætlað að sameina börn og fullorðna í því verkefni að skoða myndlist frá óvenjulegu sjónarhorni í orðsins fyllstu merkingu.

  VIÐBURÐIR
Á öðrum degi sýningarinnar, sunnudaginn 14. september kl. 15:00, verður Þóroddur Bjarnason með sýningarstjóraspjall og annast leiðsögn um sýninguna.
Sunnudaginn 21. september kl. 14:00 verður börnum og fullorðnum boðið í leiðsögn þar sem farið verður í leiðangur um sýningu Braga. Listamaðurinn sjálfur mun svo taka þátt í leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 26. október kl. 15:00.

Sýningin stendur til 16. nóvember

AÐGANGUR ÓKEYPIS
LISTASAFN REYKJAVÍKUR ER SAFNIÐ ÞITTPrinted of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 08.19.2015