News

Listasafn Islands

V A T N S B E R I - VATNSLITAMYNDIR ELLEFU LISTAMANNA - ÁSMUNDARSAFN 22. ÁGÚST KL. 17:00

Föstudaginn 22. ágúst kl. 17:00 verður opnuð í Ásmundarsafni sýning á vatnslitamyndum ellefu, íslenskra listamanna. Tæplega sjötíu verk verða á sýningunni og verður þeim stillt upp með sýningu á verkum Ásmundar Sveinssonar, Lögun línunnar, sem nú stendur yfir í safninu.
Listamennirnir sem munu sýna í Ásmundarsafni eru Anna Hallin, Björn Birnir, Daði Guðbjörnsson, Eiríkur Smith, Guðjón B. Ketilsson, Hafsteinn Austmann, Harpa Árnadóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hlíf Ásgrímsdóttir, Torfi Jónsson og Valgarður Gunnarsson.
Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

Í texta sem fylgir með sýningunni segir Aðalsteinn: ,,Með reglulegu millibili hefur hópur sérsinna listamanna komið saman til sýninga á vatnslitamyndum. Samsetning þessa hóps er aldrei sú sama frá ári til árs, enda er markmiðið mikilvægara en hópeflið, nefnilega að halda á lofti merki vatnslitanna, sennilega elstu listgrein mannkyns að undanskildu steinhöggi. Þó er ekki á neinn hallað þótt sérstaklega sé minnst á þátt þeirra Daða Guðbjörnssonar, Eiríks Smith og Hafsteins Austmann í þessu reglulega sýningarhaldi. Enda rennur þeim blóðið til skyldunnar, því í seinni tíð hafa fáir íslenskir listamenn lagt eins mikið af mörkum til vatnslitanna.
 ... Á þessari sýningu er því að finna vatnsliti á striga, gvassliti á pappír, vatnsliti með ísaumi og svo auðvitað verk þar sem tær vatnslitur og enn tærari pappír verða eitt.

Myndefni eru jafn fjölbreytt og listamennirnir eru margir: náttúruupplifanir, mannlífsmyndir, hugmyndafræðilegar pælingar, hreinar og klárar fantasíur, jafnvel útlistanir sem hingað til hafa ekki sést nema í ritum um læknisfræði. Óhætt er að segja að þessi verk séu upplýsandi á annan máta en öll önnur listaverk sem við þekkjum."

Ásmundarsafn er opið daglega frá kl. 10 - 16.
Vinsamlegast athugið að Ásmundarsafn verður lokað frá fimmtudeginum 21. ágúst fram að sýningaropnun föstudaginn 22. ágúst.

Á Menningarnótt verður Ásmundarsafn opið 10 - 18 og verða listamennirnir á staðnum.

AÐGANGUR ÓKEYPIS
LISTASAFN REYKJAVÍKUR ER SAFNIÐ ÞITTPrinted of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 05.06.2015