News

Listasafn Islands

SIGURÐUR GUÐMUNDSSON, D-8 GUNNHILDUR HAUKSDÓTTIR, Opnun fimmtudaginn 13. mars kl. 17:00 Opið til kl. 22:00!

Einn af virtustu listamönnum þjóðarinnar, Sigurður Guðmundsson snýr til leiks í Listasafni Reykjavíkur með sýningunni Mállausir kjarnar þar sem verða um tuttugu stór ljósmyndaverk sem aldrei hafa verið sýnd áður.  Þetta eru fyrstu ljósmyndaverk Sigurðar síðan 1980.  Sigurður Guðmundsson hefur sýnt verk sín í flestum stórborgum Evrópu og víða er að finna stórar höggmyndir eftir hann í opnu rými á Norðurlöndum og Mið-Evrópu. Sigurður tekur þátt í leiðsögn um sýninguna á opnunardaginn klukkan 20.

Mállausir kjarnar
Nýjustu verk Sigurðar Guðmundssonar eru stórar ljósmyndir af fólki teknar á hefðbundna filmuvél.  Ljósmyndunum hefur ekki verið breytt eftir á með stafrænni tækni en þær eru festar á álplötur, innrammaðar og sýndar undir gleri.  Ljósmyndirnar virðast hefðbundnar uppstillingar á  yfirborðinu en eru, þegar nánar er að gáð, vandlega undirbúnar með ströngum fyrirmælum um hugarástand persónanna á myndunum. 
Við gerð verkanna skapaði Sigurður aðstæður þar sem allt áreiti var útilokað frá meðvitund fólksins á myndunum eins og frekast var kostur.  Í sumum tilfellum lét listamaðurinn dáleiða viðfangsefni sín til að ná fram hugarástandi algjörrar einbeitni.  Það er undirmeðvitundin sem við verðum vitni að í þessum verkum.  Á sýningunni eru einnig tvö ný myndbandsverk. 
Í tilefni sýningarinnar kemur út bók um ljósmyndir Sigurðar. 
Listasafn Reykjavíkur gefur bókina út í samvinnu við Forlagið.

Dagskrá
fimmtudag 13. mars, kl. 20
Á opnunardaginn tekur Sigurður Guðmundsson þátt í leiðsögn um sýninguna kl. 20:00 
fimmtudag 27. mars, kl. 20
Sófaspjall í fjölnotasal Hafnarhúss
Fjallað verður um skrif Sigurðar Guðmundssonar en hann er þekktur fyrir áhugaverð ritstörf. Meðal þátttakenda verður Pétur Blöndal sem birti ítarlegt viðtal við Sigurð í bók sinni Sköpunarsögur sem kom út fyrir síðustu jól.
sunnudag 13. apríl, kl. 14
Opin listsmiðja og leiðsögn fyrir alla fjölskylduna þar sem verk Sigurðar Guðmundssonar er rannsökuð


D8 – Gunnhildur Hauksdóttir

Gunnhildur Hauksdóttir vinnur innsetningar, myndbandsverk og gjörninga oft með einföldum vísunum sem opnar eru fyrir túlkun áhorfandans og fjalla um manninn, umhverfi hans og viðmið.
Sýningarstjóri Ólöf K. Sigurðardóttir.
Næsta sýningaröð hefst í D-salnum í september. Sýningaskrá með verkum fyrstu átta listamannanna kemur út 24. apríl.

Dagskrá
sunnudag 16. mars, kl. 15
Listamannsspjall
Gunnhildur Hauksdóttir ræðir við sýningarstjórann Ólöfu K. Sigurðardóttur
fimmtudag 24. apríl, kl. 20
Útgáfuhátíð og umræður
Í tilefni útkomu sýningaskrár sem fylgir úr hlaði fyrsta hluta sýningaraðar í D-sal Hafnarhúss.

Sýningarnar standa báðar til 27. apríl.
AÐGANGUR ÓKEYPIS
LISTASAFN REYKJAVÍKUR ER SAFNIÐ ÞITTPrinted of the web Reykjvik Art Museum, www.reykjvikartmuseum.is 06.27.2015